Matthías Johannessen

Matthías Johannessen fæddist í Reykjavík þann 3. janúar árið 1930, sonur hjónanna Haraldar Johannessen og Önnu Jóhannesdóttur Johannessen. Æsku sína upplifði hann í Reykjavík á umbrotatímum og man t.a.m. vel eftir því þegar breskir hermenn stigu á land í maí árið 1940 og þegar Íslendingar sögðu skilið við Dani fjórum árum síðar. Fundu þessir atburðir sér leið inn í rit hans síðar.
Matthías varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1950. Þaðan lá leiðin í Háskóla Íslands að nema íslensk fræði.  Þar var hann í fimm ár og lauk kandítatsprófi í íslenskum fræðum með bókmenntir sem aðalgrein. Lokaritgerð hans fjallaði um Njálu í íslenskum skáldskap og var hún gefin út á bók árið 1958.  Samhliða námi sínu í Háskólanum starfaði hann fyrst sem þingskrifari og síðar sem blaðamaður á Morgunblaðinu.

Eftir kandídatsprófið starfaði Matthías áfram á Morgunblaðinu en sagði því starfi lausu og hélt utan til Kaupmannahafnar að nema almenna bókmenntasögu og leiklistarfræði.  Þá hugðist hann skrifa doktorsritgerð um Grím Thomsen, skáldið og bóndann á Bessastöðum.  ,,Í miðju þessu verki bauðst honum von Humboldt-styrkur til Þýskalands sem hann þáði.” En það átti ekki að verða því á sama tíma bauðst honum annað tilboð; að halda til Íslands og nokkru síðar að gerast ritstjóri Morgunblaðsins.  Matthías hætti í doktorsnáminu og hélt heim.

Þar með var Matthías orðinn yngsti ritstjóri stórblaðs á Norðurlöndum, aðeins 29 ára gamall, en meðritstjórar hans á blaðinu voru þeir Bjarni Benediktsson, Valtýr Stefánsson og Sigurður Bjarnason.  Það hefur eflaust verið erfið ákvörðun fyrir ungan mann sem allt gekk í haginn að söðla svona um, og eðlilegt að menn spyrji, hvað ef.....?  En blaðamennskan var Matthíasi í blóð borin og ritstjórastarfinu hélt hann óslitið fram til ársins 2001 er hann lét af störfum sakir aldurs. 

Matthías kynntist konu sinni, Hönnu Ingólfsdóttur frá Hólsfjöllum, haustið 1949 og eiga þau tvo syni, Harald og Ingólf.

En Matthías átti sér alltaf annað líf, sem var líf skáldsins og rithöfundarins.  Frá því að Njála í íslenskum skáldskap og fyrsta ljóðabókin, Borgin hló, komu út árið 1958, hafa komið út eftir hann á þriðja tug ljóðabóka, smásagnasöfn, skáldsögur, leikrit, fræðibækur, samtalsbækur og margt fleira.  Þá hafa verk eftir Matthías verið þýdd á önnur tungumál.  Er óhætt að segja að Matthías sé með afkastamestu skáldum sinnar samtíðar.    

Ljóðskáldið

Matthías fékk snemma mikinn áhuga á kveðskap og ári áður en hann gerðist ritstjóri kom út fyrsta ljóðabók hans, sem bar heitið Borgin hló.  Vakti hún strax mikla athygli og var mikið um hana fjallað.  Var kveðskapurinn frjálslegur og gekk í berhögg við hefðbundinn kveðskap.  Næsta ljóðabók kom svo út árið 1960 og hét Hólmgönguljóð.  Síðan þá hafa yfir 20 ljóðabækur litið dagsins ljós, sú síðasta, Vegur minn til þín kom út árið 2009.  Þá kom út úrval af ljóðum Matthíasar í útgáfu Silju Aðalsteinsdóttur árið 2001.

Ljóð Matthíasar eru frjáls að formi til, full af ríku myndmáli og bókmenntalegum vísunum.  Samtíminn er honum gjarnan nálægur og skáldið ber á borð fyrir lesandann sína persónulega sýn og þau hughrif sem veruleikinn færir honum.  Sýn skáldsins er oft draumkennd og fegurðin og rómantíkin aldrei langt undan.

Matthías hefur oft verið nefndur atómskáld, enda af þeirri kynslóð skálda, þegar umræðan um atómið og atómsprengjuna var ofarlega í hugum manna og menn voru að brjóta af sér bönd fortíðarinnar í skáldskap sem öðru.  Um þessa flokkun sagði Matthías eitt sinn í viðtali við Árna Þórarinsson:  ,,Ég átti heldur erfitt uppdráttar þegar ég var að byrja að yrkja.  Annars vegar var ég kallaður atómskáld og illa þokkaður af góðborgurum sem sungu Steingrím Thorsteinsson og fóru með Einar Benediktsson, eins og þeir væru hin eina sannanlega móðurmjólk þeirra.  Hins vegar kölluðu atómskáldin mig gagnbyltingarmann, af því mér líkaði ekki sú þróun íslenskrar ljóðlistar að hún lokaðist og yxi sjálfrátt og ósjálfrátt frá fólkinu í landinu, svo snar þáttur sem ljóðlist hefur alla tíð verið af lífi alþýðunnar á Íslandi.  Síðan hefur þetta viðhorf breyst og ég hef ekki yfir neinu að kvarta.  Hef farið mínar leiðir án þess að spyrja kóng eða prest”.  
En hvað sem öllum flokkunum líður hefur Matthías ort sig inn í þjóðarvitundina og veitt okkur hlutdeild í lífi sínu og hugsunum með ljóðum sínum, og skipað sér á bekk fremstu ljóðskálda sinnar samtíðar.

Leikritaskáldið

Leiklist og leikrit hafa ávallt skipað stóran sess í huga Matthíasar, enda hóf hann að læra almenna bókmenntasögu og leiklistarfræði í Kaupmannahöfn áður en hann varð ritstjóri Morgunblaðsins.  Það er þó ekki fyrr en komið er á 7. áratuginn að hann snýr sér fyrir alvöru að leikritagerð. 
Fyrsta leikritið sem hann skrifaði hét Sólmyrkvi og var gefið út af Helgafelli árið 1962.  Hefur það aldrei verið leikið.  Þá komu leikritin Jón gamli og Eins og þér sáið, sem voru flutt í Þjóðleikhúsinu árið 1967.  Hlutu bæði þessi leikrit yfirleitt góðar viðtökur og var það fyrrnefnda jafnframt fyrsta íslenska leikritið sem sjónvarpið sýndi.  Þremur árum síðar var svo komið að leikritinu Fjaðrafoki sem olli reyndar talsverðu fjaðrafoki í íslensku samfélagi.  Byggði það á raunverulegum atburðum, svokölluðu Bjargsmáli, erfiðu barnaverndarmáli,  og var í senn opinskátt og djarft, auk þess sem það endurspeglaði mikla þjóðfélagsgagnrýni.  Úr leikritinu Fjaðrafoki vann Kristín Jóhannsdóttir sjónvarpsgerð, sem hlaut nafnið Glerbrot og er gaman að geta þess að aðalhlutverkið var þá í höndum Bjarkar Guðmundsdóttur söngkonu. Fjaðrafok kom síðar út ásamt nokkrum öðrum leikritum í bókarformi.
Leikritin sem Matthías hefur skrifað telja nú á annan tug og má nefna leikrit, eins og Lungnaæfing, Húskveðja eða Ung var ég gefin Njáli, Sókrates, Ófelía og leikritið Sjóarinn, spákonan, blómasalinn, skóarinn, málarinn og Sveinn sem sýnt var í sjónvarpinu 1. desember árið 1991.  Þá var Guðs reiði flutt sem framhaldsleikrit í útvarpinu undir leikstjórn Sveins Einarssonar, en Bláa eyjan sem kom út í bókinni Maðurinn er vænglaus fluga (2006) var flutt í útvarpi 2010 undir leikstjórn Ásdísar Thoroddsen.
Það sem kannski er sláandi við leikrit Matthíasar er hversu ólík þau eru bæði ljóðum hans og sögum.  Sjónarhornið er allt annað og ólíkt og stíllinn mun beinskeyttari.  Þá vekur það athygli að mörg leikritanna fjalla um einstaklinga sem á einhvern hátt hafa borið skarðan hlut úr lífinu. En eitt eiga þau sameiginlegt öðrum verkum hans að þau eru bæði skemmtileg aflestrar og gefandi. 

Sagnaskáldið

Sagnaskáldið Matthías Johannessen býr einnig yfir miklum töfrum.  Kom fyrsta smásagnasafnið Nítján smáþættir út árið 1981 og síðan þá hafa þrjú önnur slík söfn bæst við, auk skáldsagna.  Smásögurnar eru margar hverjar mjög ljóðrænar, en efnivið sækir Matthías víða, allt frá Lúkasi guðspjallamanni fram til togarasjómanna á Halamiðum. 
Eins eru skáldsögurnar ljóðrænar í uppbyggingu.  Hann nærist á góðum minningum (2001) og Vatnaskil - Dagbókarsaga (2002) eru sjálfsævisögulegar skáldsögur ritaðar af mikilli íþrótt og innlifun.  Í þeim sýnir Matthías hve góð tök hann hefur á íslensku máli og  því að byggja upp skemmtilega sögu með ljóðrænu ívafi.  Eru þær hluti af þríleik, en síðasta bókin er enn ekki komin út. 

Önnur skrif

Eins og áður hefur verið nefnt starfaði Matthías við blaðamennsku í rúmlega 40 ár og hefur fengist við margs konar skrif á þeim vettvangi.  Eitt af því var að semja viðtöl við þekkt og óþekkt fólk í samfélaginu. Það var eins með þau skrif og önnur, Matthías lyftir þeim á ,,hærra plan". Nú liggja eftir hann fjölmargar samtalsbækur þar sem hann ræðir við menn á borð við Tómas Guðmundsson, Þórberg Þórðarson, Pál Ísólfsson, Gunnlaug Scheving og marga fleiri.  Fyrir utan að vera skemmtileg og hrífandi lesning er heimildagildi þessara samtala ómetanlegt.


Silja Aðalsteinsdóttir, ,,Kónguló sem spinnur inn í tómið”, Tímarit Máls og menningar, 1996

Sama.

Árni Þórarinsson, viðtal í Vísi frá 1978.

Ástráður Eysteinsson, Vegur minn til þín (eftirmáli), 2009.